Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 422 . mál.


Nd.

1180. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á læknalögum, nr. 53/1988.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund hennar komu Dögg Pálsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Helgi Valdimarsson, varaforseti læknadeildar Háskóla Íslands, Haukur Þórðarson, Viðar Hjartarson og Páll Þórðarson frá Læknafélagi Íslands.
    Umsagnir um frumvarpið bárust frá eftirtöldum: Geðlæknafélagi Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, landlækni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Læknafélagi Íslands og læknadeild Háskóla Íslands, læknaráðum Borgarspítala, Landakotsspítala og Landspítala, Sérfræðingafélagi lækna, Sigurði Þór Guðjónssyni og stjórnarnefnd Ríkisspítala.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um ákvæði 1.–3. gr. frumvarpsins um veitingu lækningaleyfis og framhaldsnám við Háskóla Íslands. Með vísan til umsagna þeirra, sem nefndinni bárust, telja nefndarmenn að of skammur tími sé til umfjöllunar um þessar mikilvægu greinar. Því er gerð tillaga um að fella þær brott. Gerð er tillaga um að ný grein bætist við frumvarpið þar sem ráðherra er gert skylt að leita umsagnar heildarsamtaka launafólks og atvinnurekenda um reglur og gerð læknisvottorða. Mikið var rætt um afhendingu sjúkraskráa og upplýsinga úr þeim. Nefndin er sammála um að leggja til að fyrirsögn greinarinnar breytist þannig að heiti hennar verði: Meðferð upplýsinga í sjúkraskrám, en ekki: Afhending sjúkraskráa. Þá eru tekin af öll tvímæli um að ákvæði um afhendingu afrita úr sjúkraskrám séu ekki afturvirk. Loks er lagt til að frestur landlæknis til ákvörðunar um það hvort gögn skuli afhent verði átta vikur. Að lokum er lagt til að gerðar verði breytingar á 18. gr. læknalaga svo að skýrar sé kveðið á um tilkynningarskyldu læknis og honum sé gert að tilkynna landlækni ef skaði hlýst af læknisverki. Lagt er til að ráðherra setji reglur um meðferð landlæknis á slíkum málum. Breytingar á 7. gr. eru tæknilegs eðlis þar sem breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á læknalögum, eru ekki svo verulegar að þörf sé á að gefa lögin út að nýju svo breytt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali, en nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja aðrar breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.

Alþingi, 2. maí 1990.



Jón Sæmundur Sigurjónsson,


form., frsm.


Anna Ólafsdóttir Björnsson,


fundaskr.


Geir Gunnarsson.


Sólveig Pétursdóttir.


Geir H. Haarde.


Guðmundur G. Þórarinsson.


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.